Í dag 3. mars 2020 urðu þau tímamót hjá JCB verksmiðjunum að JCB traktorsgrafa númer 750.000 rann af færibandinu. Þetta er JCB 3cx. Fyrsta traktorsgrafan var smíðuð árið 1953 en þessi uppfinning var hugarfóstur JCB sjálfs, eða Joseph Cyril Bamford eins hann hét fullu nafni. Tilkoma þessarar nýju vinnuvélar gjörbylti allri vinnu við mannvirkjagerð og leysti af hólmi handafl um allan heim og þrátt fyrir ýmsar aðrar gerðir vinnuvéla sem komu fram á sjónarsviðið seinna, hefur traktorsgrafan haldið velli og er enn ein fjölhæfasta vinnuvélin sem býðst til allskonar verka. Margir aðrir framleiðendur hafa tekið upp sína eigin útfærslu á traktorsgröfum í gegnum tíðina með hliðsjón af fyrirmyndinni frá JCB en þrátt fyrir mikla samkeppni hefur JCB traktorsgrafan haldið velli og hefur verið mest selda traktorsgrafa heims sl. 19 ár samfellt. Við hjá Vélfangi hlökkum til að bjóða áfram upp á þessa frábæru og fjölhæfu vinnuvél sem leit dagsins ljós fyrir næstum 70 árum síðan og er enn í stöðugri þróun og verður um ókomin ár.