Vélfang með nýja gerð af haughrærum (Frétt af naut.is)

Vélfang, sem m.a. er umboðsaðili Fendt á Íslandi, hefur nú tekið í umboðssölu vörumerkið Brand sem er með heildstæða línu af haughrærum og dælum. Að sögn Skarphéðins Erlingssonar, sölustjóra hjá Vélfangi, koma þessar nýju hrærur í afar fjölbreyttri mynd hvort heldur sem staðbundnar eða færanlegar, aflúttaksknúnar, vökvaknúnar eða með rafmótor, allt háð stærð og notkunarsviði.
„Í línunni eru misöflugar og fjölhæfar haughrærur, skrúfur og dælur á þrítengi, sem hægt er að fara með inn um göt á veggjum sem gólfum eða geta teygt sig inn um dyr og niður í haughús um lúgur í gólfi þar sem því er til að dreifa“, sagði Skarphéðinn í viðtali við naut.is.
Brand framleiðir einnig brunnhrærur eða sambyggðar brunnhrærur og brunndælur bæði fyrir aflúttök dráttarvéla eða rafknúnar. „Þá bjóðum við einnig upp á vökvaknúnar hrærur sem tengja má á krana eða jafnvel skotbómur til að komast á áfangastað. Ein merkasta nýjungin eru þó hinar smáu dælur og haughrærur á hjólastelli, sem hægt er að fara með inn um öll gripahús og stinga niður í hauginn hér og hvar. Hægt er að skáskjóta leggjum á þessum dælum og hrærum til að ná sem bestum notum á hverjum stað sem hentar ákaflega vel þar sem mykjan er þykk eins og oft er hjá geldneytum“, sagði Skarphéðinn áfram í viðtali við naut.is.
Svo unnt sé að hræra upp í þykkri mykju, jafnvel niður á milli rimla, eru Brand hrærunar búnar sérstökum skrúfublöðum sem kallast fiðrildi, en það er skrúfa sem leggst saman og er stungið niður á milli rimla og síðan hrært eftir þörfum á hverjum stað.  Þetta er búnaður sem vafalítið getur víða komið sér vel/SS.